Læknaskýrslur benda til þess að Líbýumaðurinn Abdelbaset Ali Mohmed al Megrahi sé ekki við dauðans dyr líkt og haldið hefur verið fram. Megrahi var sleppt úr fangelsi í síðustu viku eftir að skoska heimastjórnin tók ákvörðun um það þar sem hann lægi fyrir dauðanum.
Telegraph hefur eftir krabbameinslækninum Richard Simpson að talsverður vafi sé á því að Megrahi muni deyja innan þriggja mánaða líkt og haldið hefur verið fram.
Megrahi var dæmdur árið 2001 fyrir að hafa grandað bandarískri farþegaþotu yfir Lockerbie í Skotlandi og valdið þannig dauða 270 manna. Megrahi er langt leiddur af krabbameini. Kenny MacAskill, dómsmálaráðherra Skotlands, sagði, þegar hann tilkynnti um lausn fangans að Megrahi hefði ekki haft neina samúð með fórnarlömbum sínum en það ætti þó ekki að standa í vegi fyrir því, að honum og fjölskyldu hans væri sýnd samúð.
Er MacAskill nú gagnrýndur fyrir að hafa ekki fengið aðstoð sérfræðinga til þess að fara yfir læknisskýrslur fangans. Hefur því verið haldið fram að stjórnarandstöðinni í Bretlandi að svo virðist sem Megrahi eigi möguleika á að lifa mun lengur en áður var talið eða átta mánuði hið minnsta. Því hafi það ekki verið réttlætanlegt að láta hann lausan.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, rauf óvænt þögn sína um mál Líbýumannsins á blaðamannafundi með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels í gær. Brown sagðist forviða yfir þeim viðtökum sem Megrahi hafi hlotið við heimkomuna til Líbýu og að framkoma yfirvalda í landinu hafi gengið fram af sér en Megrahi var fagnað sem þjóðhetju við heimkomuna. Hann ítrekaði hins vegar að ákvörðun um lausn Megrahi hafi verið tekin að skosku heimastjórninni og sagðist ekki hafa komið að henni með nokkrum hætti. Brown hefur sætt harðri gagnrýni fyrir það undanfarna daga að neita að tjá sig um mál Megrahi.