Allt í óvissu um eftirmann Kennedys

Systir Edward Kennedy's, Jean Kennedy Smith og ekkja hans, Vicki …
Systir Edward Kennedy's, Jean Kennedy Smith og ekkja hans, Vicki Reggie Kennedy, fara fyrir öðrum í fjölskyldunni frá heimili hans íHyannisport. Reuters

Ljóst þykir að demókrata bíður vandasamt verk að fylla það skarð sem Edward Kennedy skilur eftir sig í öldundadeild Bandaríkjaþings á sama tíma og fyrir því liggur að umbylta heilbrigðiskerfi landsins sem hann lýst eitt sinn yfir að væri „hlutverk mitt í lífinu“ þar sem allra atkvæða er þörf til að tryggja því framgang.

Svo virðist sem enginn einn arftaki Kennedys blasi við en Edward Kennedy átti að baki 47 ár í öldungadeildinni þar sem hann tók við af bróður  sínum, John þegar hann varð forseti og hafði fyrir bragðið þriðja lengsta starfsaldur allra þingmanna fyrr og síðar á þinginu. Allan þann tíma var hann einhver eindregnasti talsmaður frjálslyndis á þinginu.

Ríkisstjóri Massachusetts, Deval Parick, tók undir þær óskir Kennedys sem hann bar fram aðeins degi fyrir andlát sitt að eftirmaður til bráðbirgða yrði fundinn sem fyrst, og sagðist Paric gera sitt til að svo gæti orðið.

Einlægur stuðningsmaður fyrirætlana Barack Obama forseta um að koma umbótum á heilbrigðiskerfinu í gegnum þingið vildi Kennedy engar þær breytingar sem veikt gæti stuðning við þær í þingdeildinni.

Þegar leitin að eftirmanni hans í þinginu hefst þykir þó enginn einn líklegastur til að hreppa þingsætið. „Það sem fer í hönd er rosalegur slagur meðal demókrata,“ er haft eftir Eugene Dionne, sérfræðingi við Brookings Institution hugveituna. „Það er enginn augljós frambjóðandi. Þetta er ríki sneisafullt af metnaðarfullum demókrötum.“

Meðal nafna sem menn hafa kastað á milli sín er Joe Kennedy, sonur Roberts Kennedys, sem var myrtur í kosningabaráttu um Hvíta húsið 1968, fimm árum eftir morðið á bróður hans, JFK forseta.

Hvorki Joe né ekkja Kennedys, Vicki, eru þó sögð hafa minnsta áhuga á þingsætinu sem þýðir að keppnin um það er galopin. Hins vegar segir Dionne að lýsti annað hvort þeirra áhuga á sætinu væri vel hægt að hugsa sér að samúð með þeim gæti gert útslagið.

Fulltrúadeildarþingmennirnir Stephen Lynche, Michael Capuano og Ed Markey hafa verið nefndir til sögunnar sem láhugasamir um sætið, en talsmaður eins þeirra segir alls ótímabær að bollaleggja um slíkt á þessari stundu þegar athyglin beinist að því fyrir hvað Edward Kennedy hét og stóð með lífi sínu.

Fyrrum öldungardeildarþingmaður Martin Meehan hefur einnig verið orðaður við þingsætið og sagður hafa nærri 5 milljónir dala til að verja í kosningabaráttuna. Þá er ríkissaksóknari Massachusetts, Martha Coakley, ein fárra kvenna sem þykja líklegar til að íhuga að gefa kost á sér.

„Það er enginn ungur Kennedy að stíga fram sem hefur eitthvern viðlíka kraft og John eða Bobby eða Ted. En fyrir utan það þá er enginn öldungadeildarþingmaður að stíga fram sem fyllt getur skarð Teddys,“ er haft eftir Norman Ornstein, sérfræðingi hjá American Enterprise Institute. „Það er ekki aðeins það að það er enginn Kennedy. Það er enginn sem kemur í stað Kennedys í þinginu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert