Átti 2 börn með ræningjanum

Jaycee Lee Dugard.
Jaycee Lee Dugard. Reuters

Banda­rísk kona, sem var rænt fyr­ir 18 árum þegar hún var 11 ára, átti tvö börn með mann­in­um sem rændi henni og dvaldi mest­all­an tím­ann sem hún var í haldi í huld­um bak­g­arði.

Kon­an heit­ir Jaycee Lee Dugard og er 29 ára. Hún hvarf 10. júní 1991 eft­ir að hún fór frá heim­ili sínu við suður­hluta Tahoe vatns í Kalíforn­íu.  Stjúp­faðir henn­ar, Carl Probyn, fylgd­ist með henni þar sem hann stóð á bíla­stæðinu og sá hvar grár skut­bíll nam staðar við hlið henn­ar. Ein­hver greip Jaycee og dró hana inn í bíl­inn. Þrátt fyr­ir að lög­regl­an brygðist hratt við og faðir­inn hefði verið vitni fannst litla stúlk­an ekki.

Dugard kom síðan í leit­irn­ar síðastliðinn miðviku­dag.  Lög­regl­an seg­ir, að búið sé að sann­reyna sögu kon­unn­ar. Hjón, Phillip og Nancy Garrido, voru hand­tek­in í kjöl­farið grunuð um að hafa rænt Dugard. Phillip Garrido er skráður kyn­ferðis­glæpa­maður sem hef­ur afplánað dóma fyr­ir mann­rán og nauðgun. 

Lög­regla í San Francisco hélt í kvöld blaðamanna­fund og sagði að fal­inn bak­g­arður hefði fund­ist á lóð Garridohjón­anna í Anti­och. Þar hefði Dugard verið haldið fang­inni. Dugard eignaðist tvær dæt­ur í prísund­inni, sem nú eru 11 og 15 ára gaml­ar. 

Lög­regl­an seg­ir, að Garrido, sem er 58 ára, hafi haldið Dugard í einskon­ar þrælk­un og falið hana í tjaldi, skúr­um og úti­hús­um á lóðinni. Hvorki Dugard né dæt­ur henn­ar hafa gengið í skóla og þær hafa aldrei farið til lækn­is.  Í garðinum voru raf­leiðslur, kam­ar og útisturta líkt og á tjaldsvæði.

Málið upp­lýst­ist í vik­unni þegar lög­regla sá Garrido á lóð Kalíforn­íu­há­skóla þar sem hann var ásamt tveim­ur börn­um að dreifa bæk­ling­um með trú­ar­legu inni­haldi. Þar sem Garrido má ekki um­gang­ast börn vegna kyn­ferðis­brota­dóm­anna til­kynnti lög­regla skil­orðsfull­trúa Garridos um málið. Garrido var síðan boðaður á fund á lög­reglu­stöð á miðviku­dag.

Þegar Garrido kom á fund­inn voru eig­in­kona hans, Dugard, sem hann kallaði raun­ar Al­issu, og tvær litar stúlk­ur í för með hon­um.  Skil­orðsfull­trú­inn, sem hafði áður komið á heim­ili Garridos, hafði aldrei séð kon­una og stúlk­urn­ar fyrr og þótti málið hið grun­sam­leg­asta. Hann bað lög­reglu um að yf­ir­heyra kon­una og þá kom í ljós að hún var Jaycee Lee Dugard.

Mál þetta minn­ir á tvö mál, sem komið hafa upp í Aust­ur­ríki á und­an­förn­um árum. Árið 2006 slapp Natascha Kamp­usch úr klóm Wolfgangs Priklopils, sem hafði rænt henni 8 árum fyrr þegar hún var 10 ára.  Priklopil framdi í kjöl­farið sjálfs­morð.

Þá var Jos­ef Fritzl á þessu ári dæmd­ur í ævi­langt fang­elsi fyr­ir að halda dótt­ur sinni fang­inni í glugga­laus­um kjall­ara í 24 ár þar sem hann nauðgaði henni ít­rekað. Stúlk­an eignaðist sjö börn með föður sín­um.

Phillip Garrido hefur verið handtekinn grunaður um að hafa rænt …
Phillip Garrido hef­ur verið hand­tek­inn grunaður um að hafa rænt Jaycee Lee Dugard. Reu­ters
Nancy Garrido, eiginkona Phillip Garrido, er einnig í haldi lögreglu.
Nancy Garrido, eig­in­kona Phillip Garrido, er einnig í haldi lög­reglu. Reu­ters
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert