Frakkar og Bretar fá bóluefni gegn H1N1

Frakkar og Bretar hafa fengið fyrstu skammtana af nýju bóluefni gegn inflúensu A, H1N1. Bóluefnið hefur ekki enn verið samþykkt en vonir eru bundnar við að öll leyfi liggi fyrir í október. Ísland fær sína fyrstu skammta í september.

Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa þó ekki enn gefið leyfi fyrir notkun bóluefnisins. Að óbreyttu ættu öll leyfi að liggja fyrir í október og er þá hægt að hefjast handa við bólusetningu. 66 hafa nú látist af völdum H1N1 í Bretlandi en inflúensan hefur leikið Breta harðast allra Evrópuþjóða.

Þá tilkynntu Frakkar að þeir hefðu fengið ótilgreint magn af nýju bóluefni. Frakkar gefa ekki upp hvaðan eða hve mikið magn bóluefnis þeir hafa fengið og bera við öryggissjónarmiðum. Þar líkt og í Bretlandi, er þess beðið að notkun bóluefnisins verði heimiluð. Frakkar hafa pantað bóluefni frá bandaríska lyfjaframleiðandanum Baxter, Sanofi-Pasteur í Frakklandi, GlaxoSmithKline (GSK) í Bretlandi og Novartis í Sviss.

Baxter og Novartis hafa bæði sótt um að fá að setja á markað bóluefni sem framleidd eru á grunni frumuræktunar en mun meira magn fæst þannig frekar en þegar efnið er framleitt á hefðbundinn hátt með því að rækta vírusa í hænueggjum.

Spánverjar tilkynntu í dag að þeir ætluðu að hefja bólusetningu gegn inflúensunni í október eða nóvember. 20 manns hafa nú látist af völdum H1N1 í landinu. Spánverjar ætla að bólusetja um 40% landsmanna til að byrja með eða rúmlega 18 milljónir manna. Byrjað verður að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk og lykilfólk í stjórnkerfi landsins. börn undir 14 ára aldri, ófrískar konur og fólk sem stríðir við alvarleg veikindi í hjarta og æðakerfi eða öndunarfærum.

Belgar fá fyrstu skammtana af bóluefni gegn H1N1 inflúensu í september. Í upphafi koma 200 þúsund skammtar frá GlaxoSmithKline en Belgar ætla að kaupa 10 milljónir skammta af bóluefni fyrir lok ársins. Bólusetning hefst þó ekki í Belgíu fyrr en eftirlitsstofnanir hafa gefið leyfi fyrir notkuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert