Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, settist til borðs með tyrkneskum leiðtogum til að snæða máltíð að lokinni föstu í kvöld. Sagði hann þetta vera tákn um virðingu sína í garð islam.
Framboð Rasmussens til embættisins mætti á sínum tíma mikilli andstöðu Tyrkja sem eru aðallega múslímar, aðallega vegna álits hans á ástandinu sem skapaðist vegna skopmyndamálsins í Danmmörku árið 2005.
„Gerið það, lítið á nærveru mína sem skýrt merki um virðingu mína gagnvart islam sem ein af helstu trúarbrögðum heimsins,“ sagði Rasmussen við kvöldmáltíðina sem rýfur föstu dagsins á Ramadan mánuði.
„Fasta er ætluð til þess að kenna þolinmæði, hófsemi, taumhald og til þess að gefa og deila með þeim sem eiga erfitt,“ sagði hann.
Rasmussen bar lof á Tyrkland sem brú milli Evrópu, Arabaheimsins og Miðausturlanda og lofaði því að styrkja böndin milli NATO og múslímaríkjanna.
„Ég er sannfærður um það að við munum ná raunverulegum árangri í því að byggja upp traust og samvinnu milli NATO og bandamanna þess í Austurlöndum og við Miðjarðarhafið.“
Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, sagði þátttöku Rasmussens í kvöldverðinum vera mikilvæg skilaboð fyrir landsmenn sína og hinn múslimska heim.
Hann vísaði því líka reiðilega á bug að ofbeldi öfgamanna væri íslömsk hryðjuverk og hvatti Vesturlönd til þess að bera virðingu fyrir islam.
„Að nota einangruð tilvik til þess að tákna heil trúarbrögð og stimpla fylgjendur þeirra sem mögulega hryðjuverkamenn, að reyna að dreifa slíkum viðhorfum og að umbera þau er glæpur gegn mannkyninu,“ sagði Erdogan.
Rasmussen átti fund með Erdogan og Abdulla Gul, forseta, fyrr í dag og mun hitta þá aftur á morgun áður en heimsókn hans lýkur.