Bananauppskera í fjölmörgum Afríkuríkjum er í hættu vegna sjúkdóma sem herjar á bananaplöntur. Tvær mismunandi plágur herja á bananaplöntur bænda og hafa sérfræðingar hvatt þá til að nota skordýraeitur eða verða sér úti um nýja og sterkari stofna af bananaplöntum.
Bananar eru afar mikilvægir í fæðuöflun í Afríku og víða uppistaðan í fæðu íbúa. Bananar eru enda afar næringarríkir og innihalda mikilvæg vítamín og steinefni. Plágan sem herjar á bananaplöntur bænda er því litin alvarlegum augum.
Tvær tegundir sjúkdóma herja á plöntur bænda allt frá Angóla til Úganda. Sjúkdómarnir berast með skordýrum í plönturnar. Annars vegar er um að ræða sjúkdóm sem veldur vaxtarstöðvun og hins vegar sjúkdómi sem veldur visnun plöntunnar. í báðum tilvikum verða ávextirnir óætir.
Vísindamenn komu saman til fundar í Tansaníu í vikunni til að ræða bananapláguna. Niðurstaðan varð sú að grípa Þyrfti til róttækra og kostnaðarsamra aðgerða. Lagt var til að sýkt svæði yrði sótthreinsuð, plöntur yrðu grafnar upp og skordýraeitri úðað á ekrurnar eða að plöntur yrðu brenndar á sýktum svæðum.