Telur sig sendiboða Guðs

Heimili Garrido í Antioch í Kaliforníu.
Heimili Garrido í Antioch í Kaliforníu. HO

Hinn 58 ára Philip Garrido, sem rændi ellefu ára Jaycee Lee Dugard fyrir átján árum og hélt henni fanginni við heimili sitt, hefur haldið bloggsíðu þar sem hann greinir m.a. frá því að Guð tali til hans og gefi honum fyrirmæli um góðverk. Þetta kemur fram á fréttavef Jylland-Posten.

Bloggsíða hans heitir: „Maðurinn sem talaði með heilanum”. Þar sagði hann m.a. þann 14. ágúst á þessu ári: „Skaparinn hefur gefið mér hæfileika til að tala með tungum engla til að ég geti komið á framfæri skilaboðum sem munu frelsa allan heiminn.” Sagðist hann gera þetta með því að breyta röddum í hreina tóna með hugsunum sínum.  

Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla hefur Garrido játað að hafa rænt Dugard og haldið henni fanginni í hljóðeinangruðum skúr við heimili sitt. Þar mun hann ítrekað hafa nauðgað henni og getið henni tvö börn.

Stúlkan gekk inn á lögreglustöð í Kaliforníu síðastliðinn miðvikudag og tilkynnti að hún væri Jaycee Lee Dugard. Hann og eiginkona hans Nancy eru nú bæði í haldi lögreglu en Garrido var áður  fundinn sekur um mannrán og nauðgun á áttunda áratug síðustu aldar.

Phillip Garrido
Phillip Garrido Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka