Til stendur að Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, fari í eins dags heimsókn til Líbýu, til að halda upp á það að ár er liðið frá því yfirvöld ríkjanna undirituðu vináttusamkomulag. Hann mun þó ekki verða viðstaddur hátíðahöld í tilefni af því aðfjörutíu ár eru frá því Muammar Gaddafi Líbýuleiðtogi tók völdin í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Ítalía réð yfir Líbýu frá 1911 til loka síðari heimsstyrjaldarinnar og hefur ríkisstjórn Berlsuconis heitið landinu andvirði 5 milljarða Bandaríkjadollara í skaðabætur vegna ranginda sem framin voru þar á meðan á valdatíma Ítala stóð.
Tugir þúsunda Ítala voru hraktir frá landinu er ítölskum yfirráðum þar lauk. 300 fulltrúum þeirra hefur nú verið boðið til landsins í tilefni af fjörutíu ára valdatíð Gaddafis.