Fellibylurinn Jimena sem geisar á Kyrrahafi úti fyrir vesturströnd Mexíkó er að sækja í sig veðrið og er nú flokkaður sem þriðja stigs fellibylur hjá bandarísku fellibyljamiðstöðinni.
Samkvæmt fellibyljamiðstöðinni er vindhraðinn í fellibylnum kominn yfir 50 metra á sekúndu og færist miðja hans til norðvesturs á 19 km hraða á klukkustund. Því er spáð að vindstyrkurinn eigi enn eftir að aukast og kann fellibylurinn að færast á fjórða styrkleikastig fljótlega.
Fellibylurinn er nú tæplega 500 km suður af Cabo Corrientes í Mexíkó og um 885 km suður af suðurodda Baja skagans í Kaliforníu. Fellibyljamiðstöðin í Miami segir að samkvæmt spám muni Jimena ganga upp með ströndinni vestan við Mexíkó en ekki ganga á land.
Fellibylnum hafa fylgt miklar rigningar, flóð og skriðuföll á láglendi og í fjöllum á vesturströnd Mexíkó.