Breska ríkisstjórnin taldi það varða „gríðarmikla hagsmuni Stóra Bretlands“ að gera sprengjumanninum í Lockerbie, Abdelbaset Ali Mohmed al-Megrah, kleift að snúa aftur til Líbíu, að því er sagði í bréfum háttsettra embættismanna sem lekið hafa til fjölmiðla. Sunday Times greinir frá þessu.
Ríkisstjórn Gordons Brown tók þessa ákvörðun eftir að snuðra hljóp á þráðinn í viðræðum olíufélagsins BP við Líbíumenn um olíuleit upp á margar milljónir sterlingspunda. Fljótlega á eftir leystist málið.
Jack Straw dómsmálaráðherra sendi kollega sínumKenny MacAskill í Skotlandi bréfin. Hann hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að heimila það að láta Megrahi lausan.
Bréfaskiptin sýna ljóst að ákvörðunin um að taka Megrahi með í samningum við Líbíu um að senda þarlenda fanga aftur heim tengdist breskum þjóðarhagsmunum.
Tvö bréf, dagsett með fimm mánaða millibili, sýna að upphafleg áætlun Straw dómsmálaráðherra var að halda Megrahi fyrir utan samning um fangaflutninga sem gerður var við Muammar Gaddafi. Samkvæmt honum áttu breskir og líbískir fangar að geta afplánað dóma í heimalöndum sínum.
Straw skipti síðan um skoðun þegar Líbía notfærði sér samningana við BP til að krefjast þess að Lockerbie sprengjumaðurinn yrði hluti af fangaskiptunum.
Greint var frá samkomulagi um leit að olíu og gasi, upp á allt að 15 milljarða punda, í maí 2007. Hálfu ári síðar var ekki búið að staðfesta samkomulagið. Straw skrifaði MacAskill 19. desember 2007 og greindi honum frá því að breska ríkisstjórnin ætlaði að falla frá þeirri ákvörðun að halda Megrahi fyrir utan fangaskiptin vegna þjóðarhagsmuna.