Mönnunum tveimur sem stóðu fyrir tveimur sjálfsmorðssprengjuárásum í Bagdad fyrir hálfri annarri viku, hafði nýlega verið sleppt úr haldi Bandaríkjamanna.
Árásirnar 19 ágúst eru þær mannskæðustu í Bagdad frá því í febrúar 2008. Að minnsta kosti þrjár bílsprengjur sprungu í borginni. Tvær þeirra voru mjög öflugar. Þeim var komið fyrir á vörubílum sem lagt var við utanríkisráðuneytið, nálægt Græna svæðinu svonefnda og nálægt fjármálaráðuneytinu. Samtals létust 95 manns í sprengingunum og um 600 manns slösuðust.
Maðurinn sem ók bílnum að utanríkisráðuneytinu og sprengdi sig í loft upp,var látinn laus úr Camp Bucca fangelsinu fyrir þremur mánuðum.
Sá sem ók vörubílnum að fjármálaráðuneytinu og sprengdi sig þar í loft upp var látinn laus úr sama fangelsi fyrir nokkrum mánuðum.
Það sem af er þessu ári hefur um 4000 íröskum föngum verið sleppt úr haldi Bandaríkjamanna í Írak. Írösk yfirvöld taka við föngunum og ákveða hvort þeir verða fluttir í írösk fangelsi eða látnir lausir.
Samkvæmt tölum sem Bandaríkjaher birti í júní sl. eru um 11 þúsund Írakar í fangelsum Bandaríkjamanna í Írak.
Innanríkisráðuneyti Íraks segir að hátt á annan tug fyrrverandi fanga hafi verið handteknir í kjölfar ódæðanna 19. ágúst. Stærstum hluta var sleppt fyrir nokkrum mánuðum úr Camp Bucca. Innanríkisráðuneytið segir að hver um sig hafi haft ákveðnu hlutverki að gegna í þessum mannskæðu árásum. Einn var ábyrgur fyrir kaupum á vörubílunum, annar átti að tryggja að hægt yrði að koma bílunum að ráðuneytunum, enn annar var ábyrgur fyrir frágangi sprengiefnanna og svo framvegis.
Við yfirheyrslur kom í ljós að sprengja átti þriðju sprengjuna sama dag og sprengt var við ráðuneyti fjármála og utanríkismála. Ekki hefur verið upplýst hvar sú sprengja átti að springa, aðeins sagt að vörubíll hlaðinn sprengiefnum hefði bilað áður en hann komst á áfangastað.