Jack Straw, dómsmálaráðherra Bretlands hefur vísað á bug staðhæfingum um að lausn Líbýumannsins Abdelbaset Ali Mohmed al Megrahi úr fangelsi í Skotlandi hafi tengst olíusamningum á milli landanna. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
„Það var enginn slíkur samningur gerður. það hefði ekki verið hægt að gera slíkan samning. Ég hefði ekki gert slíkan samning en ég hef heldur ekki vald til að gera slíkan samning," sagði hann. „Að segja við Líbýumenn: Við skulum gera við ykkur vafasaman olíusamning og láta Megrahi lausna fyrir ykkur, var bara ekki á valdi bresku stjórnarinnar. Og jafnvel þótt svo hefði verið, þá hefðum við aldrei gert slíkan samning."
Fram kemur í bréfum háttsettra breskra embættismanna sem lekið var til breska blaðsins Sunday Times að breska ríkisstjórnin hafi talið það varða „gríðarmiklum hagsmunum Stóra Bretlands“ að Megrahi yrðu kleift að snúa aftur til Líbíu.Staðhæft er í blaðinu að ríkisstjórn Gordons Brown hafi tekið ákvörðun um það eftir að snuðra hljóp á þráðinn í viðræðum olíufélagsins BP við Líbýumenn um olíuleit upp á margar milljónir sterlingspunda.
Straw er sagður hafa sent Kenny MacAskill, dómsmálaráðherra Skotlands bréfin en hann hefur staðhæft að ákvörðun um lausn Megrahi hafi algerlega verið tekin á mannúðarforsendum en hann er alvarlega veikur.