Tekin með 29 kíló af kókaíni

Yfirvöld í Perú handtóku í dag 18 ára breska stúlku á alþjóðaflugvellinum í Líma. Í ferðatösku hennar fundust 29 kíló af kókaíni. Þá var kanadísk vinkona stúlkunnar einnig handtekin á flugvellinum en í hennar fórum fundust 3,5 kíló af kókaíni.

Það voru fíkniefnahundar sem veittu stúlkunum athygli. Þegar leitað var í farangri þeirra fundust áðurnefnd 29 kíló af kókaíni í tösku bresku stúlkunnar, Salea Kathun. Talið er að söluverð kókaínsins nemi allt að þremur milljónum dollara, jafnvirði rúmlega 378 milljóna íslenskra króna. Kanadíska stúlkan, Katia Carrilho, var með 3,5 kíló af kókaíni í sínum fórum.

Stúlkurnar eiga yfir höfði sér þunga fangelsisdóma en lágmarksrefsing vegna brota gegn fíkniefnalöggjöf í Perú er sex ára fangelsi.

Perú er annar stærsti kókaínframleiðandi heims, næst á eftir Kólumbíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert