Komið hefur í ljós að Jaycee Lee Dugard, sem rænt var fyrir 18 árum í Kalíforníu, starfaði fyrir manninn sem rændi henni, hélt henni fanginni og eignaðist með henni 2 börn.
Mannræninginn, Philip Garrido, rak lítið fyrirtæki sem hannaði og prentaði nafnspjöld og auglýsingabæklinga. Svo virðist, sem Jaycee hafi starfað sem ritari hjá fyrirtækinu og átt í tölvupóstsamskiptum við viðskiptavini. Garrido kynnti hana sem dóttur sína Alissu.
„Hún útvegaði okkur allt sem við þurftum og maður fékk á tilfinninguna að hún væri drifkrafturinn í fyrirtækinu," sagði Ben Daughdrill við sjónvarpsstöðina CNN. Hann átti viðskipti við fyrirtækið Printing for Less.
Daughdrill sagðist hafa hitt Alissu tvisvar þegar hún afgreiddi pantanir. Hann segist ekki hafa haft neina ástæðu til að gruna að ekki væri allt með felldu.
Garrido rændi Dugard árið 1991 þegar hún var 11 ára. Garrido lét Dugard dvelja í tjöldum og skúrum í garði við hús sitt. Þau eignuðust saman tvær dætur, sem nú eru 11 og 15 ára.