Handsprengja fannst við leikskóla við Norðurbrú í Kaupmannahöfn í gær. Var það eitt barnanna sem fann sprengjuna og sýndi kennurum sínum gripinn. Reyndist sprengjan vera virk.
Það var seint á mánudag að eitt barnanna í leikskólanum Ásgarði við Norðurbrú í Danmörku rölti til kennara og sýndi þeim grip sem það hafði fundið í sandkassanum. Í fyrstu hélt starfsfólkið að um leikfang væri að ræða en þau sáu svo að þetta var handsprengja.
Hringdi starfsfólk leikskólans þegar í stað í lögregluna sem kom á vettvang. Eftir að hafa ráðfært sig við sérfræðinga kallaði lögreglan eftir sprengjusveit hersins þar sem hún treysti sér ekki til þess að fjarlægja sprengjuna sjálf. Samkvæmt sprengjusveitinni var reyndar ekki hætta á að sprengjan spryngi án fyrirvara. Hún var þó fullkomlega í lagi og því virk. Verið er að leita eftir fingraförum á sprengjunni.
Málið er litið mjög alvarlegum augum og voru íbúar í hverfinu og foreldar barnanna í miklu uppnámi vegna atviksins. Þykir mönnum ótrúlegt að nokkrum skuli detta í hug að setja börn og fullorðna í viðlíka hættu og þarna var gert.
Yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, Ritt Bjerregaard, segir að það sé í skoðun að setja eftirlitsmyndavélar við skólann.