Sovétríkin gagnrýnd harkalega

Forseti Póllands, Lech Kaczynski, leggur blóm að minnisvarða við athöfnina …
Forseti Póllands, Lech Kaczynski, leggur blóm að minnisvarða við athöfnina í morgun. Reuters

Forseti Póllands, Lech Kaczynski, lét í ljós reiði í garð Sovétríkjanna vegna þáttar þeirra í heimsstyrjöldinni síðari við minningarþjónustu sem haldin var í dag í tilefni byrjunar styrjaldarinnar.

Forsætisráðherra Rússlands, Vladimir Putin, var viðstaddur athöfnina ásamt fleiri leiðtogum.

Kaczynski sagði að samningur sá sem Rússland gerði við Þýskaland árið 1939 hefði skipt upp Evrópu.

Áður hafði forsetinn sagt við athöfn í Gdansk að aðgerðir Sovétríkjanna hefðu verið líkt og hnífsstunga í bakið.

Putin sagði að allir samningar við Nazista hefðu verið siðferðislega óásættanlegir.

Minningarathöfnin hófst á sama stað og sama tíma og þýskt herskip skaut árið 1939 að pólskri hafnarborg á Westerplatte skaganum. Voru það fyrstu skotin sem skotið var í stríðinu.

Kaczynski sagði við athöfnina í dögun að hernám sovéskra hersins í Austur-Póllandi, tveimur vikum síðar, hefði verið sem hnífsstunga í bakið. Hefði það verið gert af Rússlandi bolsjévika.

Samskiptin milli Póllands og Rússlands eru nokkuð stirð um þessar mundir, að hluta til vegna mismunandi skilnings á upptökum heimsstyrjaldarinnar.

Kaczynski sagði að þýsk-sovéski samningurinn sem undirritaður var viku áður en fyrstu skotunum var skotið hefðu skipt Evrópu upp í áhrifasvæði og rutt brautina fyrir átök sem hefðu kostað fimmtíu milljón manns lífið.

Hann minntist líka á blóðbaðið í Katyn, árið 1940, þar sem 20.000 pólskir yfirmenn voru drepnir af sovésku leyniþjónustunni. Hann sagði að aðgerðin hefði verið hefnd fyrir sjálfstæði Póllands og merki heimsvaldastefnu Sovétríkjanna.

Yfirvöld í Moskvu kenndu Þýskalandi í fimmtíu ár um aftökurnar og viðurkenndi fyrst árið 1990 að ábyrgðin lægi hjá þeim. Rússneskir dómstólar hafa þó úrskurðað að ekki sé hægt að skilgreina blóðbaðið sem stríðsglæp.

Talið er fullvíst að Bandamenn hafi vitað að Sovétmenn stóðu á bak við blóðbaðið en ekki Þjóðverjar. Þar sem Sovétmenn voru hins vegar taldir mikilvægari bandamenn en hið hernumda Pólland á þessum tímapuntki, árið 1943, var ákveðið að taka hlið Sovétmanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert