Björgunarmenn hafa nú fundið lík 23 manna í húsarústum í landinu. Jarðskjálfti upp á 7,4 á Richter skók Indónesíu um klukkan átta í morgun að íslenskum tíma. Upptök skjálftans voru undan strönd eyjunnar Jövu. Tugir húsa hrundu í skjálftanum og grófst fólk undir húsarústum.
Embættismaður í indónesíska heilbrigðisráðuneytinu sagði, að tugir íbúðarhúsa og annarra bygginga hefðu hrunið í borgunum Sukabumi og Tasikmalaya.
Tíu hinna látnu fundust í húsarústum í Cianjur, átta létust í Tasikmalaya, einn í Bandung og einn í Sukabumi.
„Þetta eru þeir staðir sem við höfum náð sambandi við. Það eru fjölmargir bæir og þorp sem við höfum ekki náð sambandi við og höfum því enga vitneskju um hvað þar hefur gerst,“ segir Priyadi Kardono, talsmaður björgunarsveita.
Kardono segir að mörg þeirra húsa sem hrundu í skjálftanum, séu grafin undir leðju og því erfitt um vik.
Óttast er að fleiri lík kunni að finnast í húsarústum. Tugir hafa leitað aðstoðar á sjúkrahúsum landsins.
Upptök skjálftans voru 63 km undir hafsbotni um 200 km suður af Jakarta. Skjálftinn fannst vel í borginni. Fólk flúði út úr húsum sínum og verslunarmiðstöðum og skrifstofubyggingar voru rýmdar. Fólk er logandi hrætt við að halda heim á ný vegna eftirskjálfta.
Stjórnvöld gáfu í kjölfarið út viðvörun vegna hugsanlegrar flóðbylgju. Viðvörunin var afturkölluð fljótlega. Smávægilegar bylgjur skullu á ströndinni við Tasikmalaya, einungis um 20 sentímetra háar.