Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands þvertekur fyrir að brögð hafi verið í tafli þegar al-Miqrahi, Líbýumaðurinn sem afplánaði lífstíðardóm vegna Lockerbie-málsins, var látinn laus.
Brown neitar því að breska stjórnin hafi þrýst á stjórnvöld í Skotlandi um að láta al-Miqrahi lausan. Það stangast á við yfirlýsingar Bill Rammel, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bretlands sem hélt hinu andstæða fram í gærkvöldi.
„Það var ekkert samsæri í gangi, enginn feluleikur eða brögð í tafli. Þetta hafði ekkert með samninga um olíusölu að gera og við reyndum ekki að hafa áhrif á stjórnvöld í Skotlandi. Þá gaf ég Moammar Gaddafi, forseta Líbýu engin loforð um lausn al-Miqrahi,“ segir Gordon Brown.
Hann vísar þar til sögusagna þess efnis að hann hafi á fundi með Gaddafi í júlí síðastliðnum gefið vilyrði fyrir lausn Abdelbaset Ali Mohmet al-Megrahi gegn viðskiptasamningum við Líbýu.
Þessar yfirlýsingar stangast á við yfirlýsingar Bill Rammel, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bretlands. Rammel staðfesti í gærkvöld að breska stjórnin hefði þrýst á stjórnvöld í Skotlandi um að láta al-Miqrahi, lausan. Rammel sagði að hann hefði gert yfirvöldum í Líbýu grein fyrir því að hvorki Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, né David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, vildu að Líbýumaðurinn, sem er dauðvona, andaðist í fangelsi. Rammel, sem þá var aðstoðarutanríkisráðherra, hitti ráðherra og embættismenn í Tripoli í Líbýu í febrúar síðastliðnum.
al-Megrahi er sá eini sem dæmdur hefur verið fyrir Lockerbie-sprenginguna en alls létu 270 lífið þegar flugvél Pan American flugfélagsins sprakk yfir Lockerbie í Skotlandi árið 1988.