Tarmo Kouts, talsmaður Evrópusambandsins í málefnum er varða sjórán, segir að svo virðist sem Ísraelar hafi staðið á bak við ránið á flutningaskipinu Arctic Sea á Eystrasalti í júlí en skipið var á leið til Alsír er það hvarf. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Kouts segir í viðtali við tímaritið Time að svo virðist sem Ísraelar hafi ráðist um borð í skipið þar sem það hafi flutt ólöglegan vopnafarm sem til stóð að flytja til Miðausturlanda.
„Sú saga er á kreiki að flugskeyti hafi verið um borð og það er ekki hægt að skýra málið með neinum öðrum hætti,” segir hann. „Sem maður sem var í siglinum í mörg ár get ég sagt ykkur að opinberar skýringar eru ekki áreiðanlegar.”
Kenning Kouts er í samræmi við kenningar rússneskra fréttaskýrenda skömmu eftir atvikið sem þótti hið dularfyllsta. Þeim hefur hins vegar verið algerlaga vísað á bug af Dmitri Rogozin, sendiherra Rússa hjá Atlantshafsbandalaginu NATO, en áhöfn skipsins er rússnesk og var það að koma frá Finnlandi er það hvarf.
Skipinu, sem sigldi undir fána Möltu, var rænt af átta sjóræningjum, þann 22 júlí. Það hvarf síðan tveimur dögum síðar og er talið að því hafi þá verið rænt í annað sinn. Þann 12. ágúst hóf rússneski herinn formlega leit að því og viku síðar tilkynntu rússnesk yfirvöld að skipið væri fundið og áhöfn þess óhult.
Það vakti grunsemdir um að Ísraelar tengst málinu er Shimon Peres, forsætisráðherra Ísraels, fór óvænt í heimsókn til Rússlands, daginn eftir að tilkynnt var að skipið væri fundið.
Greint var frá því í egypska blaðinu El-Aosboa í apríl að tundurskeyti hefði verið skotið að írönsku flutningaskipi úti fyrir strönd Súdans. Var skipið sagt hafa verið á leið til Gasasvæðisins með vopnafarm.