Fimm af Írökunum tuttugu og tveimur sem voru nauðungarfluttir til Íraks í morgun voru handteknir á flugvellinum eftir að dönsku fylgdarmennirnir voru farnir. Hinir eru enn á flugvellinum.
Það er einn af þeim sautján sem nú eru á flugvellinum, Shalaw Mohamed, sem skýrir frá þessu í samtali við dönsku fréttastofuna Ritzau.
- Þeir voru handteknir þegar danska lögreglan var farin. Við vitum ekki af hverju, segir hann.
Hinir sautján eru enn á flugvellinum og þar hafa þeir hugsað sér að vera.
- Starfsfólk hér á vellinum sagði okkur að það væri mjög hættulegt fyrir okkur ef við færum inn í borgina. Við erum allir mjög hræddir og við vitum ekki hvað við eigum að gera eða hvert við eigum að fara.
Hann sjálfur á fjölskyldu í Kirkuk en hann vill ekki vera í sambandi við fjölskyldu sína eða vini.
- Það eru vígamenn hér í Írak sem vilja ná mér svo ég er hræddur við að segja nokkrum að ég sé hérna. Ég óttast ekki bara um eigið líf heldur líka fjölskyldu minnar, ég veit ekki hvað gæti komið fyrir þau ef þau hjálpa mér, segir Mohamed sem er 25 ára.
Um það bil tíu af Írökunum sautján er í sömu stöðu og Mohamed segir hann. Írakarnir tuttugu og tveir fengu allir 300 dollara frá danska ríkinu þegar þeir fóru.