Ný rannsókn bendir til þess að litlar líkur séu á því að svínaflensan eigi eftir að stökkbreytast og verða að illskeyttum súpervírus. Mælt er með bólusetningu.
Margt bendir til þess að H1N1 vírusinn muni sigra hina hefðbundu inflúensu og minnkar það möguleikann á því að hann blandi sér í hóp vírusa sem hafa stökkbreyst í súpervírus, eins og margir hafa óttast. Það er ný bandarísk rannsókn sem kemst að þessu.
H1N1 breiðist út með miklum hraða og veldur mörgum alvarlegum sjúkdómum, segir í rannsókninni, en það er ekkert sem bendir til þess að vírusinn blandist öðrum sterkum flensuvírus og verði að nýjum.
Prófanir á dýrum leiddu í ljós að H1N1 vírusinn er sterkari en hinn árstíðabundni H3N2 vírus.
Aðstandendur rannsóknarinnar við háskólann í Maryland sögðu niðurstöðurnar ekki koma á óvart. Vírusinn breiddist hraðar út en aðrir þekktir vírusar því hann væri nýr og fólk væri því ekki komið með ónæmi gegn honum. Eldri vírusar rækjust hins vegar á þá hindrun að meira mótstöðuafl væri gegn þeim.
Vísindamennirnir komumst líka að því að H1N1 fer dýpra inn í öndunarkerfið, þar á meðal lungun, en hinir venjulegu flensuvírusar sem yfirleitt halda sig í nefi. Þetta hefur verið staðfest af skýrslum sjúklinga.
Í niðurstöðum er lögð áhersla á að fólk verði bólusett við svínaflensunni.
Talsmaður hópsins sem framkvæmdi rannsóknina sagði niðurstöður ekki vera óyggjandi en að það kveikti blikkandi aðvörunarljós hve sjúkdómurinn smitaðist hratt. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur spá því að um þriðjungur mannkyns muni fyrr eða seinna smitast af svínaflensunni.