„OECD varaði Íslendinga ekki við heldur lofaði frelsisvæðingu bankanna sem allir telja nú að hafi verið valdurinn að efnahagsharmleiks Íslands,“segir Thomas Vermes í umfjöllun sinni á norska fréttavefnum ABC Nyheter. Hann spyr Robert Ford sem kynnti nýja skýrslu í dag, um skýrslu frá 2006 þar sem stefna stjórnvalda var lofuð í hástert.
Í greininni rifjar Vermes upp umsögn í skýrslu samtakanna árið 2006:
„Fjármálamarkaðurinn á Íslandi blómstrar og aðgangur að fjármagni hefur batnað mjög,“ sagði í kafla skýrslunnar um hvernig stjórnmál geti bætt stöðugleika og góðan framgang á fjármálamörkuðum.
Í kjölfarið fylgi oflof varðandi stefnu stjórnvalda:
„Eftirlit með starfsemi á fjármálmörkuðum hefur verið aflétt, viðskiptabankar hafa verið einkavæddir og geirinn opnaður fyrir alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum,“ sagði í skýrslu OECD samkvæmt frétt Vermes. „Þessi frjálshyggjustefna hefur sýnt aðdáunarverðan árangur og skal haldið áfram,“sagði jafnframt í skýrslunni.
Árið 2006 hafi nokkrar stofnanir þegar lýst yfir áhyggjum af fjárhagslegum stöðugleika íslensku bankanna en OECD skrifaði í skýrsluna: „Álagspróf sýna að bankarnir eigi að þola stór högg.“
Thomas Vermes hringdi í dag í Robert Ford sem var staddur í Reykjavík til að tilkynna Íslandsskýrslu samtakanna fyrir 2009.
Vermes spyr m.a. hvort hann myndi skrifa upp á ofangreinda skýrslu í dag.
„Ha ha, ég geri ráð fyrir að við höfum fyrir þremur árum verið , og erum enn, fylgjandi frjálshyggjuvæðingu fjármálageirans,“ segir Ford. „En það sýndi sig að eftirlitið með fjármálageiranum var óviðunandi. Bankarnir urðu allt of stórir til að lúta stjórn kerfisins. Og urðu fyrir höggi sem við gátum ekki séð fyrir,“ segir Ford. „Við látum ekki af því að frjálshyggjuvæðingin er góð. En í dag myndum við leggja miklu meiri áherslu á eftirlit og gæta þess að bankakerfi yxi ekki um of,“ segir Ford.