Landsréttur í Danmörku dæmdi í gær nítján ára gamlan Dana í 7 daga fangelsi fyrir brot á vopnalögum landsins. Pilturinn var með tvo dúkahnífa í bíl sínum og fullyrði að hann hafi notað þá við vinnu sína til að opna pappakassa. Lögmaður piltsins segir að málinu verði skotið til hæstaréttar.
„Ég er orðlaus, ég veit ekki hvað ég á að segja," sagði Haris Cehic við TV2 eftir að dómurinn var kveðinn upp í gær.
Hann fékk 3000 króna sekt í héraðsdómi á Fjóni fyrr í sumar en saksóknari áfrýjaði málinu til landsréttar.
„Við erum að nálgast Danmörk, sem ég get ekki sætt mig við. Þar sem ungur piltur er settur í fangelsi fyrir að vera með tvo dúkahnífa í hólfi í bílhurðinni ásamt öðrum verkfærum. Mér líður eins og að ég hafi tekið þátt í sýningu Monty Python í landsrétti," hefur fréttavefur Berlingske Tidende eftir Klaus Ewald, verjanda piltsins.
Hann segir, að málið sé svo sérstakt að hæstiréttur eigi að taka það upp.
Málið hófst í maí þegar Cehic ók að diskóteki í Middelfart til að sækja nokkra vini sína. Að sögn lögmannsins hagaði Cehic sér ekki óeðlilega með neinum hætti en lögreglumenn komu aðvífandi og spurðu hvort þeir mættu leita í bíl hans. Hann veitti fúslega leyfið og lögreglumennirnir fundu dúkahnífana.
„Halda menn virkilega að hægt sé að stöðva glæpaflokkastríð með því að handtaka pilta á borð við Haris Cehic?" spyr lögmaðurinn.