Óeirðir blossuðu upp á götum stærstu borga Afríkuríkisins Gabons í dag eftir að tilkynnt var að Ali Bongo, sonur fyrrverandi einræðisherra landsins, hefði sigrað í umdeildum forsetakosningum sem fram fóru um helgina. Faðir Bongos var við völd í rúm 40 ár þar til hann lést í júní og var sakaður um stórfellda spillingu.
Stjórnarandstaðan sakar stuðningsmenn Bongos, sem er kallaður Ali B, um kosningasvik. Kveikt var í ræðismannsskrifstofu Frakka í Port Gentil, næst stærstu borg Gabons, sem er fyrrverandi nýlenda Frakklands. Um 10.000 Frakkar búa í Gabon og frönsk stjórnvöld hvöttu þá til að halda kyrru fyrir heima hjá sér vegna hættu á að ráðist yrði á þá.
Frönsk stjórnvöld hafa verið sökuð um að hafa haldið verndarhendi yfir föður Bongos þrátt fyrir ásakanir um að hann hefði gerst sekur um stórfellda spillingu og kosningasvik á rúmlega 40 ára valdatíma sínum.