Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur samþykkt að veita seðlabanka Zimbabve 500 milljón Bandaríkjadollara lán til að styrkja gjaldeyrisforða landsins. Verður það í fyrsta skipti í áratug sem landið fær lán frá sjóðnum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þykir lánveitingin benda til þess að Bandaríkjadollari verði áfram gjaldmiðill landsins þrátt fyrir yfirlýsingar Gideon Gono, seðlabankastjóra Zimbabve, um að Zim-dollarinn verði brátt tekinn upp að nýju. Það skilyrði er sett fyrir lánveitingunni að fjármálaráðherra landsins tryggi að lánið verði ekki nýtt til annarra verkefna.
Samkvæmt frétt ríkisrekna blaðsins The Herald hefur Gono hins vegar þegar boðað Tendi Biti, fjármálaráðherra landsins, til fundar við sig um það hvernig verja beri fjármununum. Lánveitingin fylgir í kjölfar deilna stjórnarflokka landsins um erlendar lánveitingar.
Forsvarsmenn Zanu-PF, flokks Roberts Mugabe forseta landsins, hafa sakað samstarfsflokkinn MDC um að gera ekki nóg til að tryggja lánveitingar en MCD saka
Zanu-PF á móti um mannréttindabrot sem komið hafi í vegi fyrir lánveitingar erlendis frá.