Að minnsta kosti tveir menn biðu bana og kveikt var í byggingu franska olíurisans Total í óeirðum í Afríkuríkinu Gabon í kvöld. Óeirðirnar blossuðu upp eftir að Ali Bongo, sonur nýlátins einræðisherra landsins, var lýstur sigurvegari forsetakosninga sem fram fóru um helgina.
Faðir Bongos, Omar Bongo Odimba, var við völd í landinu í 40 ár þar til hann lést í júní. Frakkar, fyrrverandi nýlenduherrar Gabons, voru sakaðir um að hafa haldið verndarhendi yfir einræðisherranum þótt hann væri sakaður um gegndarlausa spillingu. Hann varð að einum af auðugustu mönnum heims og var sakaður um að sóa opinberu fé í hégómleg verkefni á borð við marmaforsetahöll. Þrátt fyrir miklar náttúruauðlindir eru um 60% landsmanna undir fátæktarmörkum.
Hermt er að tveir menn hafi beðið bana í Port-Gentil, næststærstu borg landsins, og lögreglumenn hefðu hleypt af byssum á óeirðaseggi. Kveikt hefði verið í íþrótta- og tómstundabyggingu starfsmanna olíurisans Total, sem er eitt af 120 frönskum fyrirtækjum sem starfa í landinu.
Áður hafði verið kveikt í skrifstofu franska ræðismannsins í borginni.