Aðeins einn látinn laus í Bagdad

Íraskur hermaður við eftirlit í Bagdad.
Íraskur hermaður við eftirlit í Bagdad. Reuters

Aðeins einum af fimm Írökum sem handteknir voru við komuna frá Danmörku til Bagdad í Írak hefur verið sleppt. Alls var 22 Írökum, sem neitað hafði verið um hæli í Danmörku, snúið nauðugum til heimalands síns í mikilli skyndingu sl. miðvikudag. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken. 

Þar kemur jafnframt fram að ekki sé enn vitað af hverju fimmmenningarnir hafi verið handteknir við komuna til landsins. Samkvæmt upplýsingum blaðsins kann það að stafa af því að írösk yfirvöld telja sig ekki hafa getað staðfest hverjir umræddir einstaklingar eru. Samkvæmt heimildum verða mennirnir fjórir leiddir fyrir dómara á morgun. 

Abdeljabber Airuwahi var látinn laus í gærmorgun eftir að lögreglan hafði tekið af honum bæði passann og ökuskírteinið, en lögreglan vill ná tali af honum aftur við tækifæri. 

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International þurfi Airuwahi að þola fangelsun og pyntingar um sjö ára skeið í írösku fangelsi á valdatíma Saddams Husseins. 

Politiken hefur eftir eiginkonu Airuwahi, Fatima Airuwahi, að íraska lögreglan hafi spurt hann af hverju hann hafi verið fangelsaður undir stjórn fyrri yfirvalda, þ.e. áður en hann flúði til Danmerkur. 

Blaðamenn Politikens hafa verið í tengslum við fleiri Íraka sem sendir voru nauðugir frá Danmörku í vikunni. Þeir eru flestir í felum í norðurhluta landsins, sumir hjá ættingjum og vinum. Margir þeirra þora hins vegar ekki að hafa samband við fjölskyldur sínar af ótta við að það geti sett ástvini þeirra í hættu. Samkvæmt heimildum blaðsins vinna allir Írakarnir að því hörðum höndum að flýja land á ný eins fljótt að auðið er. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert