Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að bandarískur borgari geti lögsótt John Ashcroft, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, fyrir ólöglega handtöku. Málið snýst um handtöku Abdullah al-Kidds sem var haldið í fangelsi í sextán daga sem vitni vegna gruns um að hann hefði upplýsingar um hryðjuverkastarfsemi.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að það bryti gegn stjórnarskránni að halda vitni svo lengi í fangelsi án ákæru. Dómstóllinn lýsti slíkum handtökum sem þætti í „einum af smánarlegustu köflunum í sögu Bandaríkjanna“.
Al-Kidd var handtekinn árið 2003, þegar Ashcroft var dómsmálaráðherra, vegna þess að yfirvöld töldu að hann hefði upplýsingar um skólabróður sinn í Idaho-háskóla, Sami Omar al-Hussayen, sem var grunaður um hryðjuverkastarfsemi. Al-Kidd var aldrei ákærður og al-Hussayen var sýknaður.
Al-Kidd sagði að bandaríska stjórnin hefði brotið stjórnarskrána með því að heimila handtöku manna, einkum múslíma af arabískum uppruna, á þeirri forsendu að þeir væru mikilvæg vitni ef yfirvöldin grunuðu þá um glæpi en höfðu ekki sannanir til að ákæra þá.
Ashcroft hafði óskað eftir því að málinu yrði vísað frá þar sem hann nyti friðhelgi en dómstóllinn féllst ekki á þá beiðni.