Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, hefur aftur útnefnt konu til að gegna embætti menntamálaráðherra í landinu. Sú sem forsetinn útnefndi fyrst hlaut ekki náð fyrir íranska þinginu.
Ahmadinejad útnefndi einnig nýjan orkumálaráðherra eftir að sá fyrri fékk heldur ekki stuðning á þinginu.
Fréttastofan Mehr segir að forsetinn hafi útnefnt Fatemeh Alia sem ráðherra menntamála og Ali Zabihi sem orkumálaráðherra nú síðdegis.
Þetta er annað kjörtímabil Alia á þinginu, en hún er sögð náinn stuðningsmaður forsetans. Zabihi er yfirmaður tryggingastofnunar Írans, sem sér aðallega um líffeyri eldri borgara í landinu.
Það mun koma í ljós 15. september nk. hvort Alia og Zabihi muni hljóta stuðnings meirihluta þingsins.