Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, hefur frestað fyrirhugaðri ferð til Ísraels, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Ísraels í dag. Ýtir þetta undir vangaveltur um eftirmála fréttar sænska dagblaðsins Aftonbladet um að ísraelskir hermenn hafi stolið og selt líkamshluta látinna Palestínumanna.
Talsmaður ísraelska utanríkisráðuneytisins, Yigal Palmor, sagði í morgun ú samtali við AFP fréttastofuna að ráðuneytið hafi fengið upplýsingar um það um helgina að Bildt hefði afboðað fyrirhugaða heimsókn til Ísraels. Að sögn Palmor er skýringin sögð vera vandamál vegna tímasetningar. Ísraelskir fjölmiðlar trúa hins vegar ekki skýringu Svía og segja að Bildt hafi hreinlega ekki treyst sér til þess að standa frammi fyrir „ískulda" í heimsókninni.
Sænsk stjórnvöld hafa neitað að fordæma blaðagreinina og vísa í ákvæði í stjórnarskránni um tjáningarfrelsi.