Breytinga að vænta í ár

Ríkisstjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta er bjartsýn á að ná meiriháttar breytingum á bandaríska heilbrigðiskerfinu í gegn á þessu ári, þrátt fyrir mikla andstöðu meðal repúblikana. Þetta segir David Axelrod, ráðgjafi forsetans.

Stefnt er að því að draga úr kostnaði og ná að sjúkratryggja um 46 milljónir Bandaríkjamanna, sem eru með engar sjúkratryggingar í dag. Þetta er forgangsmál Obama í Bandaríkjunum. Kostnaðurinn við rekstur heilbrigðiskrefisins nemur um 2,5 billjónum dala á ári.

Demókratar, sem eru með meirihluta á Bandaríkjaþingi, hafa hins vegar átt erfitt uppdráttar með að smíða nýja löggjöf vegna harðrar andstöðu repúblikana.

„Ég tel að við náum að gera miklar breytingar á þessu ári,“ sagði Axelrod í þættinum „Meet The Press“ á sjónvarpsstöðinni NBC.

„Bandaríkjamenn vilja að við gerum þetta og við ætlum að koma þessu í verk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert