Breskur ökumaður komst lífs af eftir að hann ók bifreiðinni sinni fram af kletti í norðurhluta Devon í morgun. Fallið var um 60 metrar. Talsmaður bresku landhelgisgæslunnar segir að það sé kraftaverk að ökumaðurinn skuli vera á lífi.
Hann var fluttur með þyrlu á sjúkrahús um kl. fimm í morgun að breskum tíma. Ekki liggur fyrir hversu mikið maðurinn slasaðist.
Gæslumenn frá Swansea segjast ekki vita hvers vegna bifreiðin fór fram af klettinum. Það sé hins vegar kraftverk að maðurinn hafi verið á lífi og að hann hafi getað talað við björgunarmenn á vettvangi.