Fjallað verður um neyðarástandið í Afganistan á alþjóðlegri ráðstefnu sem verður haldin fyrir árslok. Þetta segja Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Þar verða Afganar jafnframt hvattir til að axla meiri ábyrgð.
Bretar, Frakkar og Þjóðverjar eiga frumkvæði að því að ráðstefnan verður haldin, með stuðningi Bandaríkjanna. Merkel greindi frá þessu áður en hún átti fund með Brown, sem er nú í opinberri heimsókn í Þýskalandi.
Merkel segir að tilgangur ráðstefnunnar verði m.a. að hjálpa Afgönum að axla meiri ábyrgð, og stuðla að auknu öryggi í landinu, betri stjórnarháttum og vinna að þróunarmálum.