Stuðningsmenn Hamids Karzais, forseta Afganistans, eru sagðir hafa búið til allt að 800 kjörstaði á pappírnum til að sjá honum fyrir tugum þúsunda falsaðra atkvæða. The New York Times hefur þetta eftir vestrænum stjórnarerindrekum í Afganistan.
Heimildarmenn blaðsins segja að kosningasvikin hafi verið svo umfangsmikil að í sumum héruðum hafi atkvæði Karzais verið tíu sinnum fleiri en áætlaður fjöldi þeirra sem kusu í raun og veru.
Mjög lítil kjörsókn var á stórum svæðum í sunnanverðu landinu vegna hættu á árásum talibana. Á mörgum kjörstöðum voru engir eftirlitsmenn vegna hótana talibana.
„Við teljum að um 15% kjörstaðanna hafi aldrei verið opnuð á kjördeginum. Samt komu þaðan þúsundir atkvæða frá stuðningsmönnum Karzais,“ sagði vestrænn stjórnarerindreki.
Afgönsk yfirvöld segja t.a.m. að 350.000 manns hafi greitt atkvæði í Kandahar, heimahéraði forsetans. Vestrænir stjórnarerindrekar telja að í raun hafi aðeins 25.000 manns kosið þar.
Helsti keppinautur Karzais, Abdullah Abdullah, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur sakað stuðningsmenn forsetans um stórfelld kosningasvik.
Samkvæmt síðustu kjörtölum var Karzai með 48,6% fylgi og Abdullah 31,6% þegar atkvæði höfðu verið talin í nær þremur fjórðu kjörstaðanna. Talið er nánast öruggt að yfirvöldin lýsi því yfir að Karzai hafi fengið meira en helming atkvæðanna, eða nógu mörg til að ekki þurfi að kjósa aftur á milli tveggja efstu frambjóðendanna.