Allt að 800 gervikjörstaðir

Hamid Karzai, forseti Afganistans.
Hamid Karzai, forseti Afganistans. Reuters

Stuðnings­menn Hamids Karza­is, for­seta Af­gan­ist­ans, eru sagðir hafa búið til allt að 800 kjörstaði á papp­írn­um til að sjá hon­um fyr­ir tug­um þúsunda falsaðra at­kvæða. The New York Times hef­ur þetta eft­ir vest­ræn­um stjórn­ar­er­ind­rek­um í Af­gan­ist­an.

Heim­ild­ar­menn blaðsins segja að kosn­inga­svik­in hafi verið svo um­fangs­mik­il að í sum­um héruðum hafi at­kvæði Karza­is verið tíu sinn­um fleiri en áætlaður fjöldi þeirra sem kusu í raun og veru.

Mjög lít­il kjör­sókn var á stór­um svæðum í sunn­an­verðu land­inu vegna hættu á árás­um talib­ana. Á mörg­um kjör­stöðum voru eng­ir eft­ir­lits­menn vegna hót­ana talib­ana.

„Við telj­um að um 15% kjörstaðanna hafi aldrei verið opnuð á kjör­deg­in­um. Samt komu þaðan þúsund­ir at­kvæða frá stuðnings­mönn­um Karza­is,“ sagði vest­rænn stjórn­ar­er­ind­reki.

Af­gönsk yf­ir­völd segja t.a.m. að 350.000 manns hafi greitt at­kvæði í Kanda­h­ar, heima­héraði for­set­ans. Vest­ræn­ir stjórn­ar­er­ind­rek­ar telja að í raun hafi aðeins 25.000 manns kosið þar.

Helsti keppi­naut­ur Karza­is, Abdullah Abdullah, fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, hef­ur sakað stuðnings­menn for­set­ans um stór­felld kosn­inga­svik.

Sam­kvæmt síðustu kjör­töl­um var Karzai með 48,6% fylgi og Abdullah 31,6% þegar at­kvæði höfðu verið tal­in í nær þrem­ur fjórðu kjörstaðanna. Talið er nán­ast ör­uggt að yf­ir­völd­in lýsi því yfir að Karzai hafi fengið meira en helm­ing at­kvæðanna, eða nógu mörg til að ekki þurfi að kjósa aft­ur á milli tveggja efstu fram­bjóðend­anna.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert