Mennirnir þrír, sem voru sakfelldir í dag fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk, hefðu getað orðið allt að 10.000 manns að bana ef þeir hefðu komið áformunum í framkvæmd, að sögn breska dagblaðsins The Daily Telegraph.
Karlmennirnir þrír voru sakfelldir fyrir að leggja á ráðin um að sprengja flugvélar í loft upp yfir Atlantshafi með heimatilbúnum sprengjuvökva. The Daily Telegraph segir að mennirnir hafi ætlað að granda sjö farþegaþotum og áformin hefðu getað orðið þrisvar sinnum mannskæðari en hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001.
Dómnum í máli mannanna er því fagnað í Bretlandi sem miklum sigri í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.
Abdulla Ahmed Ali, 28 ára, er talinn hafa verið leiðtogi hópsins en auk hans voru Tanvir Hussain, 28 ára, og Assad Sarwar, 29 ára, fundnir sekir um sama glæp. Mennirnir voru handteknir árið 2006 og leiddi handtaka þeirra til þess að reglur um vökva í handfarangri í millilandaflugi voru stórhertar.
Mennirnir höfðu allir áður verið sakfeldir fyrir að leggja á ráðin um að drepa fólk en í þeim réttarhöldum komst kviðdómur ekki að niðurstöðu um það hvort þeir hefðu ætlað að sprengja upp flugvélar.
Sakfellingin nú gefur dómara færi á að dæma þá til þyngri refsingar en fyrri sakfelling. Mennirnir báru við réttarhöldin að þeir hefðu verið að undirbúa pólitísk mótmæli og að þeir hafi einungis haft í hyggju að sprengja litlar sprengur til að hræða fólk.