Ljóst þykir að tveir Norðmenn verði á morgun dæmdir til dauða fyrir morð í Lýðveldinu Kongó. Norska blaðið Aftenposten hefur eftir verjanda þeirra að búið sé að ákveða dóminn en stjórnvöld eigi eftir að leggja formlega blessun sína yfir hann. Dauðadómum hefur ekki verið framfylgt í Kongó undanfarin ár.
Réttarhöldin yfir Norðmönnunum tveimur, sem heita Joshua French, 27 ára, og Tjostolv Moland, 28 ára, hófust í Kisangani í ágúst. Tveir herdómarar og þrír leikmenn frá her og lögreglu skipa dóminn. Norðmennirnir voru ákærðir fyrir morð, morðtilraun, njósnir, samsæri og ránstilraun eftir að bílstjóri þeirra fannst látinn með skotsár á höfði austur af Kisangani fyrr í sumar.
Norðmennirnir segja hins vegar, að bílstjórinn hafi látið lífið þegar vopnaðir ræningjar réðust á bíl þeirra.
Norðmennirnir tveir voru áður í norska hernum en norskir sendimenn segja að mennirnir hafi ekki haft nein tengsl við norskar stofnanir eða her frá árinu 2007. Þeim var að sögn vísað úr hernum þegar þeir urðu uppvísir að því að reyna að ráða hermenn til einkarekinna öryggisþjónustufyrirtækja.
Ekki er ljóst hvað þeir French og Moland voru að gera á svæðinu austur af Kisangani en umsvif öryggisgæslufyrirtækja þar hafa aukist verulega frá því olía fannst undir botni Albertsvatns, sem er á landamærum Kongó og Úganda.
Aftenposten segir, að réttarhöldin hafi ekki farið fram í samræmi við þær reglur, sem Norðmenn þekkja. Þannig hafi staðsetningartæki og kort verið lögð fram við réttarhöldin og sögð sanna njósnir Norðmannanna. Þá hafi mynd, sem tekin var í veislu í Drammen í Noregi verið lögð fram sem sönnun fyrir því að lögbrotin hafi verið undirbúin og skipulögð. Þá hafa SMS skeyti, sem fundust í síma Molands, verið túlkuð sem leynileg boð. Ekkert hefur verið gert með fullyrðingar verjenda Norðmannanna að þeir hafi enga ástæðu haft til að myrða ökumanninn.
Auk hins opinbera máls gegn Norðmönnunum hafa verið höfðuð einkamál gegn þeim. Ekkja bílstjórans hefur höfðað skaðabótamál og sömuleiðis farþegar, sem voru í bílnum, eigandi bílsins og stéttarfélag bílstjórans. Samtals nema bótakröfurnar jafnvirði 160 milljóna íslenskra króna.
Meðan á réttarhöldunum stóð lagði ríkið Kongó einnig fram bótakröfu á hendur norska ríkinu á þeirri forsendu, að þeir French og Moland væru njósnarar og hefðu þannig skaðað hagsmuni landsins. Aftenposten segir, að ríkislögmaður hafi fyrst krafist 500 milljarða dala í bætur, sem sé hærri upphæð en nemi öllum norska olíusjóðnum. Stjórnvöld í Kongó sögðu síðan, að lögmaðurinn hefði ruglað saman dollurum og frönkum og því lækkaði bótakrafan verulega.
Dauðadómum hefur ekki verið framfylgt í Lýðveldinu Kongó á undanförnum árum. Þeir sem hafa hlotið slíka dóma hafa óskað eftir því við Joseph Kabila, forseta landsins, að fá náðun. Kabila svarar ekki þessum óskum og hinir dauðadæmdu sitja því í fangelsi um óákveðinn tíma.