Óvænt brjóstasýning í grænlenska sjónvarpinu

Grænlenska ríkissjónvarpið hefur beðist afsökunar á því, að í stað lokamínútna leiks Danmerkur og Portúgals í riðlakeppni heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu á laugardag birtust skyndilega myndir af berum konubrjóstum.

Fram kemur á vef grænlenska sjónvarpsins að rafmagn hafi farið af hluta Nuuk síðdegis á laugardag. Tæknimenn sjónvarpsins hafi brugðist hratt við og tekist að senda fótboltaleikinn út með varabúnaði. En í hita leiksins hafi starfsmaður ýtt á rangan hnapp með þeim afleiðingum, að það sást bein útsending frá danska sjónvarpinu DR2 þar sem verið var að sýna þáttinn Naktar játningar. Í nokkrar sekúndur hafi sést mynd af nakinni konu í stað knattspyrnuleiksins.

„Þetta var slæm tímasetning en óhappið varð og KNR biðst velvirðingar á mistökunum," segir á vefnum.

Tæknimönnum grænlenska sjónvarpsins tókst síðan að sýna grænlenskum knattspyrnuáhugamönnum síðustu sekúndur leiksins.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka