„Palestínumenn missa alla trú"

Saeb Erekat
Saeb Erekat AP

Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínumanna, segir þá ákvörðun Ísraelsstjórnar að veita heimild til byggingar hátt í 500 íbúða í landnemabyggðum gyðinga áður en hún lýsir yfir frystingu byggingaframkvæmda í byggðum gyðinga á Vesturbakkanum, grafa undan allri trú Palestínumanna á Ísraela sem hugsanlega samningsaðila. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

„Sú ákvörðun Ísrael að heimila byggingu rúmlega 450 nýrra landnemaíbúða gerir að engu áhrif hugsanlegrar frystingar hvort og hvenær sem af henni verður,” segir hann. 

Um er að ræða byggingar í sex byggðum gyðinga á Vesturbakkanum sem Ísraelar vilja halda þrátt fyrir hugsanlegt friðarsamkomulag við Palestínumenn.

Ekki hefur enn verið greint frá því hvort landnemabyggðirnar stækki við byggingarnar en ísraelsk yfirvöld hafa lagt áherslu á að um eðlilega uppbyggingu eldri byggða sé að ræða. 

Um er að ræða 149 íbúðir í Har Gilo, 12 í Alon Shvut, 84 í Modiin Ilit, 76 í Pisgat Zeev, 25 í Kedar, 20 í Maskiot og 89 í Ma'aleh Adumim en allar eru byggðirnar í nágrenni Jerúsalem eða í Jórdanárdalnum nálægt landamærum Vesturbakkans og Mið-Ísraels. 

Heimildarmenn Haaretz segja að George Mitchell, samningamaður Bandaríkjastjórnar í Miðausturlöndum, hafi fallið frá andstöðu við framkvæmdirnar gegn því að framkvæmdir í öðrum landnemabyggðum verði frystar.

Þó mun gengið út frá því að vinna við 2.500 íbúðir, sem þegar er hafin, í landnemabyggðum Ísraela verði undanskilin frystingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert