Nýjar tölur, sem yfirkjörstjórn Afganistans hefur birt, sýna að Hamid Karzai, forseti landsins, hefur fengið 54,1% þeirra atkvæða í nýafstöðum forsetakosningum, sem talin hafa verið. Óvissa ríkir þó um úrslitin vegna fullyrðinga um stórfelld kosningasvik og verða atkvæði talin víða að nýju.
Samkvæmt tölunum, sem kjörstjórnin birti í hádeginu, hefur Abdullah Abdullah, helsti keppinautur Karzais í kosningunum, fengið 28,3% atkvæða.
Segir kjörstjórnin, að búið sé að telja 91,6% atkvæða sem greidd voru í forsetakosningunum 20. ágúst.