Kona var barin til bana af fimm starfsmönnum Wal-Mart sem sökuðu hana um búðarþjófnað í Jiangxi héraði í Kína. Þetta kemur fram í skýrslu lögreglunnar og greina fjölmiðlar frá þessu í Kína í dag..
Lögreglan hefur handtekið tvo starfsmenn verslunarinnar og þrír eru undir eftirliti lögreglu.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar var konan barin til óbóta fyrir utan heimili sitt, í nágrenni verslunar Wal-Mart þann 30. ágúst sl. Lést hún á sjúkrahúsi í síðustu viku vegna áverka sem hún hlaut við barsmíðarnar. Segir lögregla að fimm starfsmenn Wal-Mart hafi stöðvað konuna á heimleið og krafist þess að sjá kvittun hennar fyrir vörunum sem hún var með. Konan neitaði því þar sem þeir voru ekki með skilríki sem sönnuðu að þeir væru starfsmenn verslunarinnar. Deilur þeirra og konunnar stigmögnuðust og endaði með því að þeir börðu hana.
Í kínverskum fjölmiðlum kemur fram að konan hét Yu Xiaochun og var 37 ára að aldri. Haft er eftir eiginmanni hennar að þeir hafi gengið í skrokk á henni þar sem hún hlýddi ekki skipunum þeirra. Segist hann komið út og reynt að stöðva barsíðarnar án árangurs. Ekki liggur fyrir hvort ásakanir starfsmannanna reyndust réttar um að konan hafi stolið í versluninni.
Í yfirlýsingu frá Wal-Mart lýsir verslunarkeðjan, sem er sú stærsta í heimi, yfir fullum samstarfsvilja með yfirvöldum. Jafnframt sendir keðjan fjölskyldu konunnar samúðarkveðjur.