Norðmenn dæmdir til dauða í Kongó

Norðmennirnir Tjostolv Moland og Joshua French á sakamannabekknum í Kongó.
Norðmennirnir Tjostolv Moland og Joshua French á sakamannabekknum í Kongó. Reuters

Tveir Norðmenn á þrítugsaldri voru í dag dæmdir til dauða í Lýðveldinu Kongó fyrir morð og njósnir fyrir Noreg. Dómnum verður áfrýjað til æðra dómstigs.

Norskir fjölmiðlar eru með fréttamenn í Kongó sem hafa fylgst með dómsuppkvaðningunni. Fram kemur, að fjölskipaður dómur taldi sannað að Norðmennirnir tveir séu atvinnuhermenn, sem hafi tekið þátt í samsæri um að komast yfir verðmæti í landinu. 

Norðmennirnir tveir, sem heita Tjostolv Moland og Joshua French, voru fundnir sekir um öll ákæruatriði: morð, morðtilraun, njósnir, vopnað rán og samsæri um glæpsamlegt athæfi.  Voru þeir dæmdir til dauða fyrir hvert ákæruatriðið.

Norska ríkisútvarpið segir, að fagnaðarlæti hafi brotist út í réttarsalnum þegar dauðadómurinn var kveðinn upp.

Að auki voru Norðmennirnir dæmdir til að greiða jafnvirði um 20 milljóna íslenskra króna í skaðabætur, m.a. til ekkju og barna mannsins, sem þeir voru dæmdir fyrir að myrða. Loks voru þeir og norska ríkið dæmd til að greiða kongóska ríkinu 60 milljónir dala, jafnvirði um 7,5 milljarða íslenskra króna í bætur vegna þess skaða, sem njósnir Norðmannanna voru taldar hafa valdið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert