David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi, lofaði í dag að fækka þingmönnum, lækka laun ráðherra og knýja þingið til að draga úr kostnaði, meðal annars með því að hætta að niðurgreiða mat og drykk þingmanna.
Cameron sagði í ræðu að þótt rekstrarkostnaður þingsins væri um 500 milljónir punda á ári, eða sem svarar rúmum 100 milljörðum króna, væri það aðeins lítill hluti af heildarútgjöldum breska ríkisins. Stjórnmálamennirnir þyrftu hins vegar að sýna gott fordæmi á komandi sparnaðartímum með því draga úr kostnaði þingsins og skerða hlunnindi þingmanna og ráðherra.
Cameron hét því að fækka þingmönnum um 10%, eða úr 650 í 585, ef Íhaldsflokkurinn kemst til valda. Áætlað er að það spari 15,5 milljónir punda á ári, eða rúmlega 3.100 milljónir króna.
Cameron lofaði að lækka laun ráðherra um 5% eftir næstu kosningar og fækka embættisbifreiðum ráðherra og aðstoðarráðherra um þriðjung, en þær eru núna um 170.
Þinginu verður gert að spara 10% af rekstrarkostnaði sínum, meðal annars með því hætta að niðurgreiða mat og drykk þingmanna. Cameron nefndi sem dæmi að bjór væri helmingi ódýrari á börum þingsins en á venjulegum krám í Bretlandi og svipaða sögu væri að segja um matinn sem þingmennirnir fengju. „Við þurfum öll að borða, við viljum stundum fá okkur drykk, en það er ekkert við þetta starf sem neyðir okkur til að borða eða drekka meira en ef við værum í einhverju öðru starfi,“ sagði Cameron.