Vilja banna allar áfengisauglýsingar

Breskir læknar vilja banna allar áfengisauglýsingar, þar með talda kostun áfengisframleiðenda á íþrótta- og tónlistarviðburðum.

Bresku læknasamtökin segja nauðsynlegt að ráðast af hörku gegn markaðssetningu áfengis í ljósi stöðugt vaxandi neyslu.

Áfengisframleiðendur verja um 800 milljónum punda á ári í markaðsstarf eða sem nemur rúmum 165 milljörðum króna. Aðeins fjórðungi upphæðarinnar er varið í beinar auglýsingar í fjölmiðlum.

Breskir læknar telja brýnt að grípa til aðgerða þar sem áfengisneysla er aðalorsök ótímabærra dauðsfalla og alvarlegra sjúkdóma. Aðeins reykingar og háþrýstingur valda fleiri dauðsföllum og alvarlegum sjúkdómum.

Kostnaður breska heilbrigðiskerfisins vegna slysa og sjúkdóma sem rekja má til áfengisneyslu er áætlaður um þrír milljarðar punda á ári í Bretlandi eða sem nemur rúmlega 620 milljörðum króna.

Áfengisneysla í Bretlandi hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár. Rúmlega þriðjungur fullorðinna Breta neytir nú áfengis umfram viðmiðunarmörk heilbrigðisyfirvalda.

Breskir læknar eru uggandi vegna markaðssetningar áfengisframleiðenda og telja að hún beinist í auknum mæli að ungu fólki. Þeir benda á að áfengisframleiðendur verji nú um 200 milljónum punda í kostun íþrótta- og tónlistarviðburða og allra handanna getraunir og keppnir tengdar slíkum viðburðum.

Auk banns við allri markaðssetningu áfengis vilja breskir læknar að hugað verði að aukinni skattlagningu áfengis, skemmri afgreiðslutíma öldurhúsa og barist gegn svokölluðum "Happy Hour" og öðrum tilboðum sem í boði eru.

Áform um lágmarksverð á áfengi hafa þegar verið kynnt í Skotlandi og eru þau til skoðunar víðar um Bretland.

Talsmenn áfengisframleiðenda brugðust ókvæða við tillögum breskra lækna og sögðu þær geta komið harkalega við pyngju breskra neytenda. Þá ógnuðu þær afkomu þúsunda einstaklinga sem vinna beint eða óbeint við iðnaðinn. Þá væri skattlagning á áfengi í Bretlandi með því hæsta sem þekktist í Evrópu. Það hefði þegar sýnt sig að háir skattar á áfengi og þar með hærra áfengisverð, væri ekki leiðin til að hvetja til hófdrykkju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert