Obama krafðist aðgerða

Barack Obama krafðist þess í ræðu í Bandaríkjaþingi í nótt, að þingið gripi til aðgerða til að bæta bandaríska heilbrigðiskerfið sem komið sé að fótum fram bjóði upp á hróplegt misrétti. Talsverður hiti var í þingsalnum og gerði einn þingmaður hróp að forsetanum. Obama var einnig vel fagnað og þurfti 27 sinnum að gera hlé á máli sínu þegar þingmenn klöppuðu.

Forsetinn hefur lýst umbótum á heilbrigðiskerfinu sem forgangsmáli sínu í innanríkismálum og vill knýja  fram sjúkratryggingar fyrir alla Bandaríkjamenn. Repúblikanar hafa hins vegar í sumar gagnrýnt áform Obama harðlega og sakað hann um að beita blekkingum í málflutningi sínum. Segja gagnrýnendur forsetans að heilbrigðisþjónusta verði allt of dýr ef farið væri að tillögum hans.

„Við komum ekki hingað til að óttast framtíðina, við komum hingað til að móta hana," sagði Obama m.a. í ræðunni. „Ég trúi því enn að við getum sigrast á erfiðleikunum. Ég er ekki fyrsti forsetinn til að taka upp þetta mál en ég er staðráðinn í að verða sá síðasti." 

Obama sagði, að aðgerðaleysi þingmanna myndi leiða til dauða fjölda Bandaríkjamanna. Hvatti Obama repúblikana til að eyða ekki tímanum í að reyna að stöðva áform sín.

„Það er ekki lengur tími fyrir þras og leiki. Það er komið að stund aðgerða... nú er tímabært að ná niðurstöðu um heilbrigðismálin." 

Einn þingmaður, repúblikaninn Joe Wilson, gerði hróp að Obama og kallaði: lygari. Slíkt er afar sjaldgæft undir ræðu forseta í þinginu. Wilson hrindi síðar í Rahm Emanuel, starfsmannastjóra Obama, og baðst afsökunar á framkomu sinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert