Sarkozy boðar kolefnisskatt

Nicolas Sarkozy.
Nicolas Sarkozy. Reuters

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, boðaði í dag að lagður yrði á nýr kolefnisskattur á næsta ári. „Það er tímabært að taka upp græna skatta," sagði Sarkosy í ræðu, sem hann flutti í Culoz í Frakklandi í dag.

Forsetinn sagði, að skatturinn verði lagður á olíu, gas og kol og hefði það að markmiði að draga úr notkun kolefniseldsneytis. Gert sé ráð fyrir að skatturinn verði 17 evrur á hvert tonn koldíoxíðs. Er þetta hærri fjárhæð, en Francois Fillon, forsætisráðherra, nefndi í síðustu viku.

Sarkozy sagði, að tekjum af skattinum verði veitt aftur til skattgreiðenda með því að lækka aðra skatta og gefa út svonefnda græna tékka.    

Harðar deilur hafa verið í Frakklandi um áform stjórnvalda um að leggja á kolefnisskatt. Hafa gagnrýnisraddir komið bæði frá hægri og vinstri væng franskra stjórnvalda. Skoðanakannanir sýna, að 2/3 franskra kjósenda eru andvígir þessum áformum. 

Skatturinn kemur ekki til með að hafa áhrif á rafmagnsverð en mestallt rafmagn í Frakklandi er framleitt í kjarnorkuverum.  

Finnland var fyrsta Evrópulandið til að leggja á kolefnisskatt árið 1990. Svíar og  Danir fylgdu í kjölfarið.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka