Forseti Bandaríkjanna. Barack Obama, mun taka þátt í minningarathöfn um þá sem létust í hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin fyrir átta árum í dag. Þann 11. september 2001 létust tæplega þrjú þúsund manns í árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin er fjórum farþegaþotum var rænt af liðsmönnum al-Qaida.
Bæði opinberar og óformlegar minningarathafnir verða haldnar víða um Bandaríkin í dag en Bandaríkjamenn minnast þess enn með hryllingi þegar þeir fylgdust með fjórum farþegaþotum, sem hafði verið rænt af liðsmönnum al-Qaida, verða að árásarvopnum hryðjuverkamannanna í New York, Virginíu og Pennsylvaníu.
Obama mun minnast fórnarlambanna með ræðu í Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og verða aðstandendur þeirra sem létust þar viðstaddir.
Hins vegar mun varaforseti Bandaríkjanna, Joseph Biden, taka þátt í minningarathöfn við rústir Tvíburaturnanna í New York.
Alls létust 2.752 er tvær farþegaþotur flugu inn í Tvíburaturnana í fjármálahverfi New York borgar um níu leytið morguninn 11. september 2001. Líkt og undanfarin ár verða nöfn fórnarlambanna lesin upp þar.
Auk Obama mun Robert Gates, varnarmálaráðherra, taka þátt í minningarathöfninni í Pentagon. Alls létust 184, bæði á jörðu niðri og um borð í flugvélinni, þegar henni var flogið á bygginguna.
Þar sem Tvíburaturnarnir stóðu er unnið að byggingu á „Frelsisturninum" (Freedom Tower) en þar verða fimm skýjakljúfar með minningarreit í garði sem verður milli bygginganna. Framkvæmdir ganga hins vegar hægt meðal annars út af efnahagsástandinu undanfarið ár.
Í Shanksville, Pennsylvanía, þar sem fjórða flugvélin brotlenti á opnu svæði, en þar yfirbuguðu farþegar þotunnar flugræningjanna, verður einnig haldin minningarathöfn þar sem nöfn farþeganna sem létust verða lesin upp. Talið er að fljúga hafi átt þeirri þotu inn í þinghúsið í Washington.