Fyrrum forsetahjón í ævilangt fangelsi

Chen Shui-bian.
Chen Shui-bian. Reuters

Chen Shui-bian, fyrrum forseti Taívans, og eiginkona hans hafa verið dæmd í ævilangt fangelsi fyrir spillingu. Chen var ákærður fyrir að draga sér 13,5 milljónir dala, jafnvirði nærri 1,7 milljarða króna, og þiggja 9 milljóna dala mútur á meðan hann var forseti á árunum 2000-2008.

Dómurinn var kveðinn upp í héraðsdómi í Taipei í morgun. Hundruð stuðningsmanna Chens stóðu utan við dómhúsið með fána og borða og kröfðust þess að Chen yrði látinn laus. 

Chen, sem er 58 ára, var ákærður fyrir að draga sér fé úr sérstökum sjóði, þiggja mútur að jafnvirði 9 milljóna dala í tengslum við opinberan landakaupasamning, þvætta hluta af fénu gegnum svissneska bankareikninga og falsa skjöl.

Málinu verður áfrýjað til hærra dómstigs. Chen hefur vísað ákærunum á hendur sér á bug og segir að um sé að ræða pólitískar ofsóknir, runnar undan rifjum  Ma Ying-jeou, eftirmanns síns. Ma hefur neitað því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert