Ný skoðanakönnun í Danmörku sýnir að nær helmingur Dana á aldrinum 18-25 ára vill að skilið verði milli ríkis og kirkju, segir í Jyllandsposten. Aðeins 35% vilja halda í þjóðkirkjuskipulagið. Blaðið vitnar í nokkra biskupa sem segja það aðeins tímaspursmál hvenær skilið verði á milli.
Þegar hefur verið skilið á milli í Svíþjóð og biskuparnir segjast álíta að Danir muni fara sömu leið. Kjeld Holm í Árósastifti segir að Danir lifi nú þegar í samfélagi margra trúarbragða. ,,Mörgum prestum finnst að kirkjan sé að glata frelsi sínu og ríki og stjórnmálamenn hafi of mikil afskipti af henni, t.d. þegar þeir krefjast þess að prestur sé rekinn."
Miklar deilur hafa verið í landinu vegna afskipta nokkurra presta af málefnum íraskra flóttamanna sem hafa verið sendir gegn vilja sínum aftur heim eftir margra ára dvöl í Danmörku án landvistarleyfis. Sumir prestar segjast hafa falið flóttamenn og brotið þannig landslög. Hefur þess verið krafist að þeir verði reknir.