Tólf lögreglumenn slösuðust þegar óeirðir brutust út í Hamborg í Þýskalandi í gærkvöldi. Alls voru um sex tugir manna handteknir en átökin brutust út þegar hópur vinstri sinnaðra ungmenna vildi mótmæla göngu hægriöfgamanna í borginni.
Kveikt var í bílum og ruslatunnum og flöskum og grjóti kastað í lögreglumenn. Lögreglumaður skaut viðvörunarskotum eftir að hópur manna réðist á lögreglubíl.
Átök brjótast oft út milli lögreglu og vinstrisinnaðra mótmælenda í Hamborg.