Faðir grænu byltingarinnar látinn

Norman Borlaug árið 2007.
Norman Borlaug árið 2007. Reuters

Bandaríski vísindamaðurinn Norman Borlaug er látinn 95 ára að aldri. Borlaug, sem fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1970, var almennt talinn upphafsmaður svonefndrar grænu byltingar í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar þegar matvælaframleiðsla var aukin með vísindalegum aðferðum.

„Norman E. Borlaug bjargaði fleiri mannslífum en nokkur annar maður í mannkynssögunni," sagði Josette Sheeran, yfirmaður Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í dag.

Borlaug fæddist árið 1914 í Iowa. Langafi hans og langamma voru norskir innflytjendur og Borlaug vísaði oft til Noregs sem lands feðra sinna. Eftir háskólapróf í Minnesota starfaði hann fyrst  við skógrækt og síðan við tilraunir í hveitirækt.

Upp úr miðri síðustu öld stóð mannkynið  frammi fyrir þeim vanda að þurfa að auka matarframleiðsluna verulega og beitti Borlaug sér fyrir útbreiðslu tækniþekkingar til að gera þjóðum heims kleift að framleiða meira af mat með innleiðingu nýrrar tækni.  Á vefsíðu Nóbelsstofnunarinnar segir að á árunum 1944-1960 hafi Borlaug unnið að lausn vanda hveitiræktunar í Mexíkó.

Eitt framlag Borlaugs var að þróa ný afbrigði hveitis sem höfðu þol gegn sjúkdómum og hentuðu ólíkum veðurskilyrðum. Að samanlögðu leiddi þetta til aukinnar framleiðslu og hin nýju hveitiafbrigði og framfarir í ræktunaraðferðum og skipulagi í Mexíkó á fimmta og sjötta áratugnum, þróun sem síðar barst til Asíu og Rómönsku-Ameríku, varð vísir þess sem síðar var nefnt „græna byltingin“. 

Færð hafa verið rök fyrir því, að Borlaug hafi með þessu komið í veg fyrir hungurdauða milljarðs manna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert